Skip to content

Umsögn frá skólaráði

Melaskóla, 18.8.2019

Umsögn frá skólaráði Melaskóla varðandi nýjar reglur um afhendingu strætókorta til nemenda í grunnskólum Reykjavíkur.

Aðdragandi

Á fundi skólaráðs Melaskóla, þann 15.8. 2019, var tekið fyrir erindi frá skóla- og frístundasviði (SFS) þar sem óskað er eftir umsögn skólaráðsins um drög að nýjum reglum um afhendingu strætókorta til nemenda í grunnskólum borgarinnar. Upphaflega var erindi þetta sent Melaskóla bréflega 1. febrúar sl. en síðan ítrekað með tölvupósti 23.4.2019. Skólastjóri Melaskóla harmar þessa töf á afgreiðslu málsins og þakkar fyrir viðbótarfrest sem fékkst til að skila inn umsögn skólaráðsins. Ekki er vitað með fullu hvernig stóð á því að skólaráðið tók málið ekki fyrir fyrr en skólastjóri axlar ábyrgðina af því.

Efnisatriði málsins

Tillagan sem var samþykkt af skóla- og frístundaráði 25. júní sl. og vísað í framhaldinu til borgarráðs, gengur út á það í meginatriðum að hætta skólaakstri í Skerjafjörð en bjóða nemendum Melaskóla sem þar búa, strætókort í staðinn, þeim að kostnaðarlausu. Með þessu sparast um 8 milljónir. Að öðru leyti er vísað í gögn málsins þar sem fjallað er um afhendingu strætókorta, hverjir eigi að fá þau og hverjir ekki, mikilvægi þess að börn og unglingar noti strætó meira og síðast en ekki síst nauðsyn þess að nemendur í grunnskólum Reykjavíkur sitji við sama borð.

Eftirfarandi viðbótarupplýsingar bárust fyrir fund skólaráðsins: SFS hefur í skoðun nokkurs konar mótvægisaðgerðir vegna erfiðra aðstæðna á gönguleiðinni frá stoppistöðinni á Suðurgötu. Annars vegar að leið 12 beygi inn Brynjólfsgötu (hjá Vigdísarhúsi) og stoppi við Hagatorg, framan við Hótel Sögu, og þaðan fái nemendur fylgd í skólann. Og hins vegar, ef svo ólíklega vildi til að Strætó bs. samþykkti ekki þessa breytingu á leið 12, að fylgdin yrði frá stoppistöðinni á Suðurgötu. Þessar hugmyndir voru kynntar foreldrum og með þeim hætti að fylgdin yrði fullnægjandi, þ.e. fylgdarmaðurinn færi fleiri en eina ferð þar sem nemendur koma ekki endilega allir með sama vagninum. Væntanlega yrði um fleiri en einn aðila að ræða sem annaðist þessa fylgd.

Hér verður ekki gerður greinarmunur á Litla- og Stóra-Skerjafirði. Skv. breytingunum er gert ráð fyrir að nemendur úr Litla-Skerjafirði gangi í Melaskóla enda eigi þeir heima í innan við 1,5 km fjarlægð frá skólanum. Í umsögn skólaráðs Melaskóla verður hér eftir bara talað um Skerjafjörð vegna þess að skólaakstur í Stóra-Skerjafjörð nýttist augljóslega líka fyrir Litla-Skerjafjörð þar sem hann er í leiðinni.

Samtal við foreldra

Fyrir fundinn þann 15.8. sl. hafði ráðið boðið foreldrum nemenda sem búsettir eru í Skerjafirði, að koma á framfæri viðhorfum sínum til þessara breytinga. Um 30 foreldrar mættu á fundinn sem stóð í klukkutíma. Einnig mætti starfsmaður SFS undir lokin og svaraði spurningum fundarmanna. Auk þessara foreldra sem mættu á fundinn hafa all nokkrir sent skólastjóra bréf vegna þessara fyrirhuguðu breytinga. Af þeim foreldrum sem hafa þannig tjáð vilja sinn um málið við skólaráð og skólastjóra er um að ræða einróma andstöðu við þá fyrirætlan að hætta skólaakstri úr Skerjafirði. Foreldrar hafa lýst þungum áhyggjum af öryggi barna sinna og í raun reiði yfir því að ekki sé tekið tillit til ungs aldurs þeirra sem nýta skólaaksturinn í dag. Ljóst er að breyting þessi verður ekki í neinni sátt við foreldra í Skerjafirði heldur þvert á móti.

Umsögn skólaráðs Melaskóla

Að loknum fundinum með foreldrunum fundaði skólaráðið um málið og gefur eftirfarandi umsögn:

Skólaráð Melaskóla tekur undir margar athugasemdir foreldra og deilir áhyggjum þeirra. Skólaráðið  leggst því alfarið gegn þeirri tillögu að skólaakstri í Skerjafjörð verði hætt. Nokkur rök eru fyrir þessari afstöðu sem nú verður gerð grein fyrir:

  1. Hverfið Skerjafjörður hefur nær algjöra sérstöðu innan Reykjavíkur sökum fjarlægðar frá skólum og annarri þjónustu. Einungis Kjalarnes fellur í sama flokk hvað það varðar. Að auki er óhætt að segja að almenningssamgöngur að þjónustustofnunum þeim sem íbúum Skerjafjarðar er ætlað að sækja, séu ekki greiðar. Skólaráðið lítur svo á að skólaakstur sé forsenda þess að Skerjafjörður sé hluti af skólahverfi Melaskóla.
  2. Strætó hentar ekki yngstu nemendunum, 5 til 7 ára og jafnvel ekki 8 og 9 ára heldur. Börn á þessum aldri hafa tæplega þroska til að geta nýtt sér almenningssamgöngur með þessum hætti, án eftirlits eða aðstoðar. Öryggi barnanna er ekki tryggt með ásættanlegum hætti í strætó ef þau hafa ekki fylgdarmann með sér. Öryggisbelti eru ekki í strætisvögnum og ekki víst að börnin fái sæti.
  3. Þá stoppar strætó, leið 12, langt frá Melaskóla. Næsta stoppistöð er á Suðurgötu sem líta má á sem hættulega umferðargötu. Þar hafa orðið banaslys á gangandi vegfarendum og hefur verið rifjað upp að skólaakstur var tekinn upp í kjölfarið á einu slíku hörmulegu slysi.
  4. Gönguleiðin frá Suðurgötu, eftir Brynjólfsgötu og meðfram Háskólabíó eða Hótel Sögu getur verið erfið og óörugg. Núna er hún ógreið vegna framkvæmda en þess utan er þetta ekki ákjósanleg gönguleið þar sem margar opnanir eru af henni inná bílastæði Hótel Sögu og Háskólabíós/Vigdísarhúss. Í myrkri vetrarmánaðanna er eiginlega óskiljanlegt að láta sér detta í hug að ætla sex ára börnum að ganga þarna í skólann án fylgdar, eins og upphaflegar hugmyndir gerðu ráð fyrir. Fylgd myndi auðvitað vera nauðsynleg þarna.
  5. Þær mótvægisaðgerðir sem hefur verið varpað fram, um fylgdarmann frá Suðurgötu eða að leið 12 stoppi hjá Hagatorgi og nemendur fái fylgd þaðan, duga þó ekki að mati skólaráðs, til að slá á áhyggjur af öryggi barnanna á þessari leið þeirra í skólann. Hugmyndin um fylgd er auðvitað góðra gjalda verð en í framkvæmd getur hún orðið nokkuð flókin.
  6. Skólaráð Melaskóla fagnar því hins vegar að nemendur fái strætókort (en að skólaakstri verði samt haldið áfram) og hvetur borgaryfirvöld til að hlutast til um að strætó sem er að stærstum hluta í eigu borgarinnar, skipuleggi strætóleiðir sem nýtast börnum í Skerjafirði. Þá þyrfti strætó að ganga á milli Skerjafjarðar og inní Vesturbæ, t.d. að Melaskóla, Vesturbæjarlaug og Frostaskjóli.

Tvær ábendingar

  • Nauðsynlegt er að funda sérstaklega með foreldrum í Skerjafirði og að pólitísk forysta borgarinnar mæti þar og eigi samtal við foreldrana.
  • Rætt er um jafnræði milli hverfa borgarinnar varðandi skólaaksturinn. Skólaráð Melaskóla vill í því sambandi benda borgaryfirvöldum á að ekki dugi að nota þau rök bara þegar hentar. Þegar gengið er um skólalóð Melaskóla og húsnæðið skoðað og borið saman við ýmsa aðra skóla í öðrum hverfum borgarinnar, þá er ljóst að ójafnræðið þar á milli er himinhrópandi.

Samantekt og lokaorð

Skólaráð Melaskóla mælir gegn því að skólaakstri úr Skerjafirði verði hætt, fyrst og fremst af þeirri ástæðu að skólaaksturinn er forsenda þess að hverfið sé yfirhöfuð hluti af skólahverfi Melaskóla. En einnig vegna þess að yngstu börnin hafa ekki þroska til að nýta sér almenningssamgöngur með þessum hætti, eftirlits- og fylgdarlaus.

Þá fer skólaráðið fram á að borgaryfirvöld taki nú þegar upp samtal við foreldra í Skerjafirði um þau mál sem hér hafa verið reifuð þannig að ákvarðanir um þetta séu teknar í sátt við íbúana í hverfinu, að raddir þeirra fái að heyrast og börnin njóti vafans þó það þýði að ekki takist ná nokkurra milljóna hagræðingu um sinn.

Að lokum lýsir skólaráðið yfir vilja sínum og skólastjórnar Melaskóla til að vinna áfram að þessu máli í samvinnu við fræðsluyfirvöld og foreldrasamfélagið, í því skyni að auk nýta fjármuni sem best án þess þó að fórna í neinu mestu hagsmununum fyrir minni: öryggi, velferð og menntun nemenda skólans.

Skólaráð Melaskóla

Fyrir hönd ráðsins,

Björgvin Þór Þórhallsson

skólastjóri