Skip to content

Skólaráð Melaskóla

Við grunnskóla skal starfa skólaráð sem er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólaráð fjallar um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið. Skólaráð skal fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin.

Skólaráð skal skipað níu einstaklingum til tveggja ára í senn, tveimur fulltrúum kennara ásamt einum fulltrúa annars starfsfólks í viðkomandi skóla, tveimur fulltrúum nemenda og tveimur fulltrúum foreldra auk skólastjóra sem stýrir starfi skólaráðs og ber ábyrgð á stofnun þess. Skólaráð velur að auki einn fulltrúa grenndarsamfélags til að sitja í ráðinu eða viðbótarfulltrúa úr hópi foreldra.


Fundargerðir skólaráðs skólaárið 2021-2022

  1. Skólaráðsfundur 28.09.2021 
  2. Skólaráðsfundur 16.02.2022


Ályktun skólaráðs Melaskóla 25.2. 2021

Skólaráð Melaskóla fundaði þann 16. febrúar síðastliðinn þar sem farið var yfir rekstrarstöðu skólans og tölvukost. Einnig var fjallað um húsnæðismál, skólalóð og aðbúnað og loks  fjölda nemenda í bekkjum.

Eftirfarandi bókanir og samþykktir voru gerðar á fundinum:

1. Húsnæðismál Melaskóla.

Skólaráð Melaskóla áréttar enn og aftur þungar áhyggjur sínar af húsnæðis- og aðstöðumálum skólans. Húsnæðið uppfyllir ekki nútímakröfur um nemenda- og starfsmannaaðstöðu, þar með talið mötuneyti og matsal auk salernisaðstöðu. Þá eru aðgengismál algjörlega ófullnægjandi í aðalbyggingu skólans. Loks skortir skólann hin ýmsu rými og skipulag húsnæðis sem nauðsynleg eru til að Melaskóli geti sinnt hlutverki sínu vel, sem menntastofnun fyrir nemendur í 1.-7. bekk, og í samræmi við nýja menntastefnu Reykjavíkurborgar, „Látum draumana rætast“. Allt þetta og fleira hefur verið ítarlega rætt og tekið út í fjölmörgum skýrslum og greiningum undanfarin mörg ár.

Nú síðast hefur, í tæpt ár, verið í gangi vinna af hálfu Reykjavíkurborgar við að greina þarfir skólans fyrir húsnæði, svokallaða forsögn. Fram hefur komið að á grundvelli þeirrar forsagnar muni verða ráðist í úrbætur. Mjög brýnt er að þessari vinnu verði lokið án tafar og nauðsynlegar ákvarðanir teknar til að unnt sé að hefja viðbyggingu og endurbætur við Melaskóla sem verði forgangsverkefni hjá Reykjavíkurborg þar til því er lokið.

2. Fjöldi nemenda í bekkjum og sérstaða skólans.

Eftir að hafa kynnt sér rekstrarmál Melaskóla og þær áskoranir sem skólinn býr við, ályktar skólaráð Melaskóla að styðja þurfi skólann í þeirri stefnu hans að hafa bekkjardeildir undir ákveðnum fjöldaviðmiðum a.m.k. í fyrstu tveimur árgöngunum. Þar er ákjósanlegt að nemendafjöldinn fari ekki yfir átján í 1. og 2. bekk. Skólaráð leggst alfarið gegn því að fjölga í yngri bekkjum í sparnaðarskyni. Það hafi sýnt sig að sú leið hafi ekki reynst vel, hvorki kennslufræðilega né rekstrarlega.

Þá sýnir nýleg greining skólastjóra á stofustærðum almennra bekkjarstofa skólans að umræddar kennslustofur bera ekki þann nemendafjölda sem í skólanum er nú. Brýnt er að miða fjölda í bekk við stærð almennra kennslustofa. Það þýðir væntanlega fjölgun bekkja frá því sem nú er.

3. Tölvu - og tækjakostur Melaskóla.

Skólaráð Melaskóla fagnar metnaðarfullri samþykkt skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur um hraðari innleiðingu stafrænnar tækni sem gengur undir nafninu Gróska. Það er okkar einlægur vilji og markmið að Melaskóli verði í farabroddi í stafrænni sókn Reykjavíkurborgar á yngsta- og miðstigi grunnskóla. Því þarf að tryggja gott aðgengi að búnaði og að kennurum standi til boða endurmenntun í nýtingu tækni í almennu námi. Miðað við núverandi stöðu tækjabúnaðar fyrir nemendur í Melaskóla óskar skólaráðið eftir því að forgangsröðun skóla- og frístundaráðs taki mið af henni. Það þýðir að tvöfalda þarf búnað ætlaðan nemendum í Melaskóla.

4.Kostnaður vegna forfalla starfsfólks.

Við yfirferð yfir rekstrarniðurstöður Melaskóla fyrir árið 2020 kemur í ljós að útgjöld vegna ýmissa forfalla kennara eru gífurlega há og langt umfram fyrirliggjandi áætlanir.  Skólastjóri upplýsti að það væru einkum svokölluð "lengri skammtímaforföll", þ.e. forföll í 1-4 vikur, sem yllu miklum kostnaði umfram áætlanir.

Brýnt er að greina hvað veldur þessum miklu og þungu forföllum og gera úrbætur til að draga úr þeim eins og frekast er unnt.  Samhliða telur skólaráð rétt að kannað verði hvort ástand mála í Melaskóla sé að þessu leyti sambærilegt eða ósambærilegt við aðra skóla í Reykjavík.

 

Skólaráð Melaskóla

Skólaráð 2021-2022

Skólastjóri
Jón Pétur Zimsen

Aðstoðarskólastjórar
Harpa Reynisdóttir
Helga Jóna Pálmadóttir

Fulltrúar kennara
Edda Björnsdóttir
Jórunn Pálsdóttir

Fulltrúi starfsmanna
Halldór Einarsson

Fulltrúar foreldra
Vilborg Guðrún Sigurðardóttir
Sesselja Jónsdóttir

Fulltrúi grenndarsamfélagsins
Markús Efraím
frá Íbúasamtökum Vesturbæjar

Fulltrúar nemenda
Jannika Jónsdóttir
Matthías Eysteinn Valdimarsson

Áheyrnarfulltrúi: formaður FORMEL
Bjarni Magnússon

Fundagerðir skólaráðs 2020-2021
Fundagerðir skólaráðs 2018-2019

.