Stoðþjónusta

í Melaskóla

Stefna Melaskóla er að leggja áherslu á gott forvarnarstarf með yngstu nemendurna og nemendahópa. Einn liður í því er ýmiss konar próf, skimanir og athuganir sem lagðar eru fyrir heila árganga. Einnig er leitast við að hafa áhrif á framboð og fjölbreytni verkefna inni í bekk fyrir nemendur sem þurfa sérstakan stuðning. Deildarstjóri sérkennslu er umsjónarkennurum til aðstoðar með skipulag og val á verkefnum.

Skólabyrjun - 1. bekkur
 Lögð er áhersla á fyrirbyggjandi starf einkum við upphaf skólagöngu:
• upplýsingar frá leikskóla, Hljóm - 2
• upplýsingar hjúkrunarfræðings
• athugun talmeinafræðings
• hreyfiathugun íþróttakennara
• hópathugun Tove Krogh
• Læsi 1 – lesskimunarpróf
• Leið til læsis – lesskimunarpróf, orðalistar fyrir 1. bekk
• Lesmál - lesskimunarpróf með Byrjendalæsi 
• Boehm-R próf, metur hugtakaskilning

Umsjónarkennarar og deildarstjóri sérkennslu vinna sameiginlega úr þessum upplýsingum, leggja línurnar fyrir framhaldið og skipuleggja stuðning þar sem þess gerist þörf. Nánari greining er gerð af sálfræðingi, sérkennara, talmeinafræðings  og/ eða hjúkrunarfræðingi ef ástæða þykir til.

Í 2. til 7. bekk eru kannanir lagðar fyrir heila bekki í samráði við umsjónarkennara, lesið úr niðurstöðum og námskeið skipulögð  í framhaldi af því,  m.a. er notað:
• Lesskilningspróf
• Lesmál – lesskimunarpróf með Byrjendalæsi
• Samræmd próf í íslensku og stærðfræði
• Carlsten lesskilnings- og stafsetningarpróf
• Aston Index - stafsetningarpróf
• Læsi – lesskimunarpróf
• Orðarún  – lesskimunarpróf, lesskilningur
• Leið til læsis  – lesskimunarpróf
• Talnalykill - greinandi stærðfræðipróf

Ef þörf er á nánari greiningu er hún gerð í samráði við foreldra og umsjónarkennara og er þá m.a. stuðst  við eftirfarandi greiningargögn:
• TOLD málþroskapróf
• Aston Index lestargreinandi próf
GRP 10 - greinandi próf í lestri og stafsetningu
 LOGOS Greiningarpróf á Dyslexíu og öðrum lestrarerfiðleikum
• Talnalykil – einstaklingshluta prófsins

Einnig er foreldrum vísað til annarra sérfræðinga með börn sín í þeim tilvikum sem það á við en það ferli hefst yfirleitt hjá skólasálfræðingi í þjónustumiðstöð Vesturgarðs.

Samstarf við sérfræðiþjónustu í þjónustumiðstöð
Sálfræðiþjónusta við Melaskóla er á vegum Vesturgarðs. Vesturgarður er þjónustumiðstöð hverfisins og þar er einnig veitt ýmis önnur fagleg þjónusta, s.s. kennsluráðgjöf. 
Algengt er að leitað sé ráðgjafar sálfræðings þegar nemendur á grunnskólaaldri eiga við náms- eða aðlögunarerfiðleika að stríða. Oftast er það umsjónarkennari, í samráði við foreldra,  deildarstjóra sérkennslu og/eða skólahjúkrunarfræðing sem vísar nemendum til sálfræðings. Foreldrar geta leitað beint til Vesturgarðs en skilyrði fyrir því að mál séu tekin til meðferðar er að veittar séu umbeðnar upplýsingar á sérstöku tilvísunarblaði. Einnig er hægt að leita eftir aðstoð kennsluráðgjafa og félagsráðgjafa.

Móttökuáætlun nemenda með sérstakan stuðning
Móttaka nemenda með sérstakan stuðning er með þeim hætti að um leið og nemandinn er skráður í skólann fer af stað ákveðið ferli sem unnið er í samráði við foreldra, leikskóla/skóla og greiningaraðila. Þeir sem koma að málinu mynda teymi og setja upp starfsáætlun/ einstaklingsnámskrá  sem unnið er eftir. Þegar barn sem þarf sérstakan stuðning flyst úr leikskóla í grunnskóla hefst undirbúningur nokkrum  mánuðum áður.  Á þeim tíma funda greiningaraðilar með leikskóla, foreldrum og skóla.

Áfallaráð
Við skólann hefur starfað áfallaráð. Hlutverk þess er að hlúa að nemendum og starfsfólki sem verður fyrir óvæntum áföllum. Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, kennari, hjúkrunarfræðingur, skrifstofustjóri og skólasálfræðingur eru í áfallaráði. Samráð er haft við þjónustumiðstöð Vesturgarðs og ef dauðsfall ber að höndum verður haft samband  við sóknarprest Neskirkju að höfðu samráði við aðstandendur.

Sérstakur stuðningur við nemendur
Stefna skólans er að hafa starfandi menntaða sérkennara sem annast daglega kennslu, faglega stjórnun, skipulag sérkennslu og ráðgjöf til foreldra og umsjónarkennara. Þátttaka sérkennara í markvissu nýbreytni- og þróunarstarfi er einnig mikilvæg. Kennsla nemenda með sérstakan stuðning er í höndum sérkennara og í einhverjum tilvikum annarra  kennara skólans. Skólanum  ber að sinna öllum nemendum og mæta þeim á þeirra forsendum eins og kostur er og á það við um alla almenna kennslu í skólanum. Nemendur sem víkja frá í þroska miðað við aldur eiga rétt á þjónustu í skólanum, sérkennslu eða aðstoð stuðningsfulltrúa, þroskaþjálfa eða sérkennara.
Lausnateymi hefur verið starfandi við skólann en hlutverk þess er að veita kennurum stuðning og ráðgjöf varðandi  nemendamál.

Náms- og starfsráðgjafi
Í Melaskóla starfar náms- og starfsráðgjafi. Hlutverk hans er að standa vörð um velferð nemenda, styðja þá og liðsinna í málum er snerta nám og líðan. Námsráðgjafi skólans er Laufey Kristjánsdóttir, netfang: This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Í Aðalnámskrá grunnskóla (2011) kemur fram að „náms- og starfsráðgjöf er lögbundinn hluti af sérfræðiþjónustu skóla. Starf náms- og starfsráðgjafa í grunnskóla felst í því að vinna með nemendum, foreldrum, kennurum, skólastjórnendum og öðrum starfsmönnum skólans að ýmiss konar velferðarstarfi er snýr að námi, líðan og framtíðaráformum nemenda. Náms- og starfsráðgjöf felst í því að liðsinna nemendum við að finna hæfileikum sínum, áhugasviðum og kröftum farveg. Mikilvægt er að nemendur fái aðstoð við að leita lausna ef vandi steðjar að í námi þeirra eða starfi í skólanum. Náms- og starfsráðgjafar geta aðstoðað nemendur við að vinna úr upplýsingum um nám sitt og leiðbeint þeim við áframhaldandi nám og starf. Jafnrétti ber að hafa að leiðarljósi í náms- og starfsfræðslu með því að kynna piltum og stúlkum fjölbreytt námsframboð og störf af ýmsu tagi. Leitast skal við að kynna báðum kynjum störf sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundin karla eða kvennastörf. Nauðsynlegt er að kynna fyrir nemendum ný störf og þróun starfa sem fylgja breytingum í nútímasamfélagi“.
 
Meginuppistaða náms- og starfsráðgjafar í Melaskóla er:
Persónuleg ráðgjöf: Ráðgjöfin felur í sér fjölbreytta aðstoð við nemendur með ýmis vandamál, stór og smá. Þessi tími gerir ráð fyrir einstaklings- og/eða hópráðgjöf. Hægt er að bóka viðtalstíma hjá náms- og starfsráðgjafa. Í þessum tímum verður unnið með erfiðleika og vandamál nemenda, eineltismál, ákvarðanatöku, vandræði með vináttu eða opnað fyrir hjálp vegna erfiðra heimilisaðstæðna. Í þessum tíma verða nemendur hvattir til að setja sér markmið og trú á eigin getu efld. Einnig verður rætt um sjálfstraust og hvað það getur gert margt gott fyrir mann. Hér þarf að hafa í huga mikilvægi þess að vísa áfram á rétta fagaðila ef svo ber undir. Persónuleg ráðgjöf fer fram í stofu náms- og starfsráðgjafa í góðu og þægilegu umhverfi.
Fræðsla inni í bekk: Unnið með sjálfsmynd nemenda, umhyggju, fordóma og staðalmyndir. Notast við vinnubækur, leiki og ýmis verkefni svo sem hópavinnu og umræður. 
Samskipti: Litlir hópar, unnið í samvinnu við umsjónarkennarana fyrir þá nemendur sem rekast illa félagslega. Unnið verður með samskipti, rökræður, segja sína skoðun, virða skoðanir annarra, mynda tengsl, sýna virðingu og stuðla að vináttu og tengslamyndun.
Námstækni: Unnið verður í hópum til að stuðla að aukinni námsfærni og getu. Glósutækni, lestrartækni, nemendum kennt að draga út aðalatriði í texta, auka virkni og sjálfstraust nemenda.
Örfyrirlestrar: Samskipti, líðan, undirbúningur fyrir próf, góðar lífsvenjur. Frjáls mæting.

Stuðningsfulltrúar
Samkvæmt  starfslýsingu er stuðningsfulltrúi kennara til aðstoðar við að sinna einum eða fleiri nemendum sem þurfa sérstaka aðstoð. Starfið miðar fyrst og fremst að því að auka færni og sjálfstæði þessara nemenda, félagslega, námslega og í daglegum athöfnum. Starfið tekur mið af þar til gerðri áætlun sem hefur það að markmiði að draga smám saman úr þörf nemanda fyrir  stuðning í þeim tilvikum þar sem það er hægt.
Í Melaskóla vinna stuðningsfulltrúar eftir áætlun sem tekur mið af þörfum einstaklinga, útbúin af umsjónarkennara í samráði við deildarstjóra  sérkennslu, kennsluráðgjafa, sálfræðing eða annan ráðgjafa. Dagleg verkstjórn er í höndum deildarstjóra sérkennslu.

Námsver
Í Námsveri skólans er leitast við að koma til móts við nemendur með frávik og aðstoða þá nemendur sem eiga erfitt með að stunda nám í almennum bekk. Hlutverk námsversins er einkum að:
• Aðstoða nemendur með umtalsverða náms- og hegðunarerfiðleika.
• Taka á móti nemendum í "opna" tíma og tryggja þeim jákvæðar námsaðstæður.
• Þjálfa félagsfærni 
•  Atferlismótun
 

Þroskaþjálfi
Þroskaþjálfi starfar við skólann og felst starf hans aðallega í því að þjálfa einstaka nemendur í félagsfærni og annarri færni sem þeir þurfa að búa yfir við nám, leik og daglegar athafnir. Þroskaþjálfi
gerir einstaklingsáætlun í samráði við umsjónarkennara, sérkennara, foreldra og aðra
eftir því sem við á.

• Gerir færnimat og þroskamat.
• Skipuleggur þjálfunaraðstæður, velur/útbýr þjálfunar- og námsgögn, og fylgir eftir
settum markmiðum. Metur árangur og endurskoðar markmið í samstarfi við
samstarfsaðila. Skilar niðurstöðum til næsta yfirmanns og foreldra.
•  Stendur vörð um réttindi barna með sérstakan stuðning.
•  Veitir foreldrum  ráðgjöf og leiðbeiningar er lúta að sérstöðu nemandans.
•  Annast upplýsingagjöf og upplýsingaöflun vegna sérstakra þarfa nemanda síns.
Vinnur önnur þau verkefni sem skólastjóri felur honum og eðlilegt getur talist að rúmist innan
verksviðs hans.
Notast við mismunandi vinnuaðferðir og  fer  það eftir einstaklingnum og nemendahópum hverju sinni.
Skipuleggur umhverfi nemenda þannig að þeim líði vel, námsaðstæður séu jákvæðar og þeir eigi  auðvelt með að sýna sem bestan námsárangur.

Sérúrræði
Melaskóla ber að sinna öllum nemendum eins vel og kostur er og á það við um alla almenna kennslu í skólanum. Nemendur sem víkja frá í þroska miðað við aldur eiga rétt á þjónustu í skólanum, sérkennslu eða aðstoð stuðningsfulltrúa, þroskaþjálfa og sérkennara.  Þessir aðilar mynda teymi um nemandann innan skólans sem metur og leitar úrræða í hverju einstöku tilviki.

Tilfærsluáætlun
Nemendur Melaskóla flytjast yfir í Hagaskóla í 8. bekk. Haldnir eru samráðs- og skilafundir með foreldrum,  kennurum og stuðningsaðilum. Unnið er að því að undirbúa og aðlaga nemandann með heimsóknum og kynningu á nýjum skóla.
Skólaganga leikskólabarna með sérstakan stuðning er undirbúin í samstarfi við leikskólann, foreldra viðkomandi barns og sálfræðing á þjónustumiðstöð Vesturgarðs..

Einstaklingsáætlun
Þeir nemendur sem sýna mikil frávik í getu og þroska fá einstaklingsnámskrá. Hvert tilvik þarf að meta í samráði við foreldra með tilliti til heildaraðstæðna nemandans. Myndað er teymi foreldra, kennara og greiningaraðila um nemandann. Þessir aðilar starfa náið saman og funda reglulega.  Reynt er að hafa eldri nemendur með við gerð áætlana svo höfða megi til ábyrgðar þeirra og samvinnu. Foreldrar eru ávallt velkomnir í skólann einnig er óskað sérstaklega eftir þátttöku þeirra í ákveðnum verkefnum.

Nemendaverndarráð
Hlutverk nemendaverndarráðs  er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur. Það fjallar um einstök mál sem lúta að velferð nemenda. Í nemendaverndarráði sitja skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, deildarstjóri sérkennslu, hjúkrunarfræðingur, einnig kennsluráðgjafi og sálfræðingur skólans frá Vesturgarði. Nemendaverndarráð  fundar vikulega.

Skólaheilsugæsla
Heilsugæsla  Melaskóla er á vegum Heilsugæslunnar á Seltjarnarnesi. Skólahjúkrunarfræðingur er Jóhanna Sigtryggsdóttir og er hún til viðtals fyrir hádegi alla daga einnig eftir hádegi  tvo daga í viku. Nánari upplýsingar má sjá á sameiginlegri vefsíðu skólaheilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, http://www.6h.is.
Markmið skólaheilsugæslu er að börnin fái að vaxa, þroskast og stunda nám sitt við bestu andleg, líkamleg og félagsleg skilyrði sem völ er á og í samræmi við þá þekkingu sem um ræðir á hverjum tíma.Til að svo megi verða er hjúkrunarfræðingur með skipulagða heilbrigðisfræðslu fyrir börn, sjá einnig nánar á netsíðunni 6h.is.
1. bekkur (6 ára), mæling á sjón, heyrn, hæð og þyngd - viðtal.
4. bekkur (9 ára), mæling á sjón, hæð og þyngd - viðtal.
7. bekkur (12 ára), mæling á sjón, hæð, þyngd - viðtal. Bólusetning gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum (ein stunga). Stúlkur verða bólusettar gegn HPV veirunni (leghálskrabbamein) sem þarf að endurtaka í tvígang sama vetur.
Fylgst er með því að ekki vanti upp á ónæmissprautur og bætt úr ef þurfa þykir en ávalt  í samráði við foreldra. Einnig er fylgst náið með börnum sem búa við andleg, líkamleg eða félagsleg frávik. Skólahjúkrunarfræðingur upplýsir um þá nemendur sem greindir eru með alvarlega sjúkdóma sem þörf er á að starfsmenn þekki til, t.d. bráðaofnæmi, flogaveiki og sykursýki.
Ávalt er haft samband við foreldra/forráðamenn ef eitthvað virðist athugavert hjá barni sem ekki var vitað um áður svo og ef slys eða óhöpp verða.

Talþjálfun
Talþjálfun er veitt í skólanum. Talmeinafræðingur annast greiningu og meðferð þeirra nemenda sem eiga við mál- og talörðugleika að stríða og veitir ráðgjöf og fræðslu þar að lútandi. Hann hittir  nemendur sem koma til náms í 1. bekk og sér um að skima málþroska þeirra. Færst hefur í vöxt að Hljóm-2 fylgi nemendum úr leikskóla en það metur hljóð- og málvitund leikskólabarna.  Talmeinafræðingar við skólann eru Heba K. Hallsdóttir og Þóra Ársælsdóttir.

Náms- og starfsráðgjöf
Staða náms- og starfsráðgjafa hefur ekki verið til við skólann.

Sjúkrakennsla
Langveik börn fá kennslu á sjúkrahúsi en að öðru leyti er skipulag kennslunnar í höndum umsjónarkennara og skólastjórnenda. Ef fyrirséð er að nemandi verði heima í einhvern tíma er haft samráð við foreldra um að kennari komi heim til hans og annist kennslu.
Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að hafa samband við skólaheilsugæsluna ef ástæða þykir til. Einnig skal tekið fram að alltaf er haft samband við foreldra/forráðamenn ef um vanlíðan er að ræða eða  eitthvað virðist athugavert hjá barni sem ekki var vitað um áður svo og ef slys eða óvænt óhöpp verða á skólatíma.

Fjölmenningarlegir kennsluhættir
Nemendur af erlendum uppruna fá kennslu í íslensku þar sem áhersla er lögð á að margbreytileiki sé góður, jákvæður og spennandi í skólastarfi. Foreldrum þessara nemenda er bent á að til þess að börnin geti tileinkað sér íslensku og íslenska siði og venjur verði þau að standa vel að vígi í sínu eigin móðurmáli og menningu.  Við lítum svo á að skólinn, kennarar og nemendur geti lært margt af þeim sem koma erlendis frá. Það eykur umburðarlyndi og víðsýni að kynnast fólki sem tilheyrir ólíkum menningarhópum og hefur ákveðið forvarnargildi gegn einelti. Ýmis konar verkefni sem tengjast uppruna nemenda eru unnin á margvíslegan hátt auk þess sem sérstakir dagar geta verið uppspretta fjölmenningarlegar umræðu, s.s. dagur Sameinuðu þjóðanna, evrópski tungumáladagurinn o.fl.  dagar.

Íslenska sem annað tungumál

Íslenska sem annað tungumál er námsgrein fyrir nemendur sem hafa annað mál en íslensku að móðurmáli og hafa ekki nægilegt vald á íslensku til að geta stundað almennt nám í íslenskum skólum til jafns við aðra nemendur. Þetta á jafnt við um nemendur af erlendum uppruna og börn sem hafa íslensku að móðurmáli en hafa dvalið í útlöndum stóran hluta ævinnar.

Færni í íslensku er meginforsenda þess að nemendur geti tekið virkan þátt í íslensku skólastarfi og samfélagi. Með kennslu í íslensku sem öðru tungumáli er leitast við að þjálfa nemendur í íslensku og menningarfærni og viðhalda og þróa þekkingargrunn og læsi.

Að nemandinn verði læs á íslenskt skólaumhverfi stuðlar að vellíðan nemandans í skólanum og gerir gagnkvæma félagslega aðlögun innan nemendahópsins mögulega.

 

Móttökuáætlun
Áður en nemandi með íslensku sem annað mál hefur skólagöngu í Melaskóla boðar skólinn hann og foreldra hans til sérstaks móttökufundar. Fundinn sitja deildarstjóri sérkennslu, umsjónarkennari, kennari í íslensku sem annað mál/sérkennari og hjúkrunarfræðingur. Ef foreldrar tala ekki íslensku þarf að sjá til þess að túlkur sitji fundinn.
Á fundinum fer fram ítarlegt móttökuviðtal við nemanda og aðstandendur. Unnið eftir Handbók um móttöku innflytjenda í grunnskóla Reykjavíkur
Á móttökufundinum er m.a. bent á mikilvægi íslenskunáms hjá börnum með annað móðurmál en íslensku hvað varðar aðgengi að íslensku skólasamfélagi, menntun og menningu. Jafnframt eru foreldrar nemenda með íslensku sem annað mál hvattir til að stuðla að því að börnin viðhaldi móðurmáli sínu. Traust undirstaða í móðurmáli er oftast forsenda færni í seinni málum og ekki er æskilegt að börnin missi tengsl við sinn upprunalega menningarheim.
Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og stefnu í málefnum barna með íslensku sem annað tungumál er kveðið á um fjölmenningarlega kennsluhætti og að nemendum sé kennt að meta menningarlegan margbreytileika. Foreldrum er bent á að þessar upplýsingar og fleira hagnýtt, m.a. upplýsingar um íþróttir og tómstundir barna og frístundakort, er að finna á ýmsum tungumálum á heimasíðu Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, sjá: Grunnskólinn. Upplýsingar til foreldra af erlendum uppruna.  
 
Mat á stöðu nemanda
Fljótlega eftir að nemandi byrjar í Melaskóla er könnuð staða hans í íslensku, stafaþekking, lestur og lesskilningur. Myndrænt orðaforðapróf og spjall. Stuðst er við Mat á málfærni nemanda í íslensku sem öðru tungumáli í Þríþættu mati á stöðu nemanda sem finna má á heimasíðu Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.
Í samráði við umsjónarkennara verður staða nemandans í öðrum námsgreinum metin með tilliti til þess hvort hann geti fylgt námsefni bekkjarins eða hvort hann þurfi aðlagað námsefni. Einstaklingsnámskrá samin, ef með þarf.
 
Kennsla í íslensku sem öðru máli
Reynt verður að mæta nemandanum þar sem hann er staddur í íslensku sem öðru máli. Megináhersla verður lögð á almennan orðaforða og skólaorðaforða og síðan hugtakaskilning. Framburður og íslensk málhljóð eru æfð sérstaklega sem og íslenska stafrófið. Áhersla er lögð á hlustun og skilning, lestur og lesskilning. Myndir, sjónrænn orðaforði, spil, tölva, o.fl. nýtist vel til að efla orðaforða nemandans. Áhugamál nemanda og bakgrunnur eru notuð sem kveikja í íslenskunámi. Móðurmálið myndar þá brú yfir í íslensku.                Bjargir/Stoðir: orðabækur og orðalistar/bækur á netinu. Þýðingarforrit í tölvu.
Aðlögun námsefnis og utanumhald eru mikilvæg. Greinabundin íslenskukennsla þar sem kennd eru ákveðin hugtök sem tengjast viðkomandi námsgrein. Aðlögun texta.
Foreldrar og skóli þurfa að vinna náið saman til að tryggja barninu sem farsælustu aðlögun í nýju landi. Nota túlkaþjónustu í foreldraviðtölum, ef með þarf. Leitast verður við að skilaboð frá skóla séu á tungumáli sem foreldrar skilji.
 

 

Móttaka nýrra nemenda
Nemendur eru skráðir í skólann gegnum rafræna Reykjavík. Nemendum ásamt foreldrum er boðið að skoða skólann  og kynna sér aðstæður. Umsjónarkennari ræðir um komu nýja nemandans við bekkinn  sinn og undirbýr komu hans.  Tilteknir nemendur taka nýja nemandann að sér og aðstoða  hann  við að öðlast öryggi á nýjum stað.
Umsjónarkennari sér um að sérgreinakennarar viti af nýja nemandanum áður en hann mætir hjá þeim í tíma. Foreldrar fá einnig upplýsingar um nýjan nemanda. Nemendur sem eru af erlendu bergi brotnir fá sambærilegar móttökur auk þess sem kennari sem kennir íslensku sem annað mál hittir þá daglega, kannar stöðu þeirra  og aðstoðar við það sem við þarf að fást hverju sinni. ”Nýbúakennari” og umsjónarkennari bera sameiginlega ábyrgð á því að nemandinn sé ávallt að vinna með námsefni sem hæfir getu hans og skilningi á íslenskri tungu. Fundur með foreldrum, umsjónarkennara, nýbúakennara, hjúkrunarfræðingi, deildarstjóra sérkennslu og túlki er haldinn eins fljótt og auðið er og eins oft og þurfa þykir.
Þegar nemandi flytur burt er þess  gætt að sérgreinakennarar og aðrir starfsmenn viti af því og geti kvatt hann.

Móttaka 6 ára nemenda
Við skólabyrjun í ágúst eru 6 ára nemendur  boðaðir í viðtal til umsjónarkennara síns ásamt foreldrum þar sem barnið og hagir þess eru í brennidepli.  Að viðtölum loknum hefst skólastarf samkvæmt stundaskrá.  Í september  er foreldrum barnanna  boðið á kynningarfund þar sem farið er yfir mikilvæg atriði er varða og  hafa áhrif á skólabyrjun barnsins. Umsjónarkennarar kynna skólastarfið, kosnir eru bekkjarfulltrúar og foreldrum gefst  tækifæri til að kynnast og skipuleggja frekara samstarf.