Forvarnaráætlun

Fyrirbyggjandi starf

Melaskóli er Olweusarskóli og leitast við að vinna fyrirbyggjandi starf gegn einelti. Verkefnavinnu og bekkjafundum með nemendum er ætlað að gera þá meðvitaða um mikilvægi heilbrigðra samskipta. Olweusaráætlunin og forvarnargildi hennar er rifjuð upp að hausti. Forvarnarstarf tengt vímuvörnum og hugrekki og kynþroskafræðsla er hluti af lífsleikni. Fræðslan er aðallega í höndum umsjónarkennara, skólahjúkrunarfræðings og íþróttakennara. Forvarnaráætlun um viðbrögð við kynferðislegu ofbeldi er afrakstur þróunarverkefnis þar sem starfsmenn skólans fengu fræðslu og leiðbeiningar um hvernig þekkja megi einkenni kynferðislegs ofbeldis og hvernig bregðast skuli við. Ýmis forvarnarverkefni sem flokkast undir lífsleikni eru tilgreind nánar í skólanámskrá, s.s. hættur í umhverfinu, umferð, brunahætta, jarðskjálftar og unnin í samvinnu umsjónarkennara og skólahjúkrunarfræðings. Kennarar með sérþekkingu á vissum sviðum koma einnig að ákveðnum verkefnum, s.s. hjólafærni. Stefnt er að því að hafa tiltekinn forvarnardag að hausti þar sem ákveðnir árgangar leggja áherslu á mismunandi verkefni.

Í tengslum við forvarnarstarf skólans heimsækja lögregluþjónar nemendur ákveðinna árganga og fara yfir ýmis mál sem tengjast almennri lífsleikni., s.s. umferðareglur, slysahættu o.fl. Lögreglan er oft sýnileg í nágrenni við skólann og skólinn leitar af og til sérstaklega eftir því að lögreglan fylgist með bílaumferð kringum skólann í byrjun skóladags til að tryggja öryggi nemenda.