Fundagerðir

7. fundur 2016-17

Aukafundur í skólaráði 22.05.2017

Mætt:Helga Pálmadóttir skólastjóri, Sveinn Bjarki Tómasson aðstoðarskólastjóri, Björg Melsted fulltrúi kennara og Margrét Berndsen fulltrúar kennara, Silja Traustadóttir fulltrúi í foreldrafélags Melaskóla.

Efni: Húsnæðismál.

Ekkert nýtt að frétta af húsnæðismálum Melaskóla. Stuttlega rætt um næstu skref í þeim málum en engar ákvarðanir teknar. Erindi frá stjórn foreldrafélags Melaskóla sem barst til skólaráð móttekið. Erindið varðaði slæma stöðu Melaskóla í húsnæðismálum og aðstöðu í skólanum sem og rekstrarforsendur skólans.

Fundi slitið þar sem fulltrúar foreldra voru ekki mættir og engar nýjar upplýsingar voru sem  vörðuðu erindi fundarins.

Ritari. Björg Melsted

6. fundur 2016-2017

Fundur í skólaráði 11.05.2017

Mætt:Helga Pálmadóttir skólastjóri, Sveinn Bjarki Tómasson aðstoðarskólastjóri, Björg Melsted fulltrúi kennara og Margrét Berndsen fulltrúar kennara, Katrín Oddsdóttir, María Rán Guðjónsdóttir og Sveinbjörn J. Tryggvason fulltrúar foreldra.

Efni: Fjármál og starfsáætlun skólans samkvæmt fundaáætlun og dagskrá funda.

Önnur mál: Umbótaáætlanir sem verið er að vinna að. Starfsfólk næsta vetur. Lóða- og húsnæðismál.

Helga Pálmadóttir fór yfir rekstur Melaskóla. Enn óljóst með fjármagn fyrir næsta skólaár og reiknilíkan Reykjavíkurborgar ekki fullmótað.

Tekið var fram að kennslumagn fyrir Melaskóla hafi verið aukið.

Helga og Sveinn fóru yfir áherslur í starfsáætlun fyrir skólaárið 2017- 2018.

 • Kennslumagn verði sem næst fjárheimildum.
 • Reynt verði að finna svigrúm til að styrkja stjórnun skólans, ráða verkefnastjóra, deildastjóra og námsráðgjafa.
 • Styrkja stoðþjónustu, sérkennslu og stuðning við nemendur.
 • Viðhalda öflugli gæslu í frímínútum og matssal.
 • Unnið er að því að manna stöður fyrir næsta skólaár.
 • Gert er ráð fyrir sama bekkjarfjölda í skólanum.

Skóladagatal fyrir næsta skólaár var lagt fram og samþykkt án athugasemda.

Farið var yfir stöðuna í húsnæðismálum Melaskóla. Í stuttu máli er engin niðurstaða í því máli og beðið er eftir svörum frá SFS.

Tilkynnt var að SFS hefði ákveðið að fresta fyrirhuguðum lóðaframkvæmdum við Melaskóla í ljósi þess að húsnæðismál væru enn óljós. Beðið verður með lóðaframkvæmdir þar til ákveðið verður hvort og hvar verði byggt við Melaskóla.

Umræður: Fulltrúar foreldra lýstu yfir óánægju með að Melaskóli fengi minnst fjármagn per nemanda vonast til að því verði breytt. Skólaráð hefur áhyggjur af því að ekki hafi enn verið komist að neinni niðurstöðu varðandi hvernig skuli bregðast við miklum þrengslum sem nemendur og starfsfólk búa við í Melaskóla. Eins var mikil óánægja með að framkvæmdum við skólalóð skuli hafa verið fresta í ljósi þess að löngu er tímabært að endurnýja og bæta hana.

Í lokin var lagt til að boðað yrði til auka skólaráðsfundar í ljósi þess að of mörg mál væru enn óleyst. Ákveðið var að boða til fundar 22. maí og fá Silju Traustadóttur sem setið hefur í húsnæðisnefnd fyrir hönd foreldra í vetur.

Ritari. Björg Melsted

4. fundur 2016-17

Fundur í skólaráði 2. 02.2017

Mætt: Björgvin Þ. Þórhallsson skólastjóri, Helga Pálmadóttir aðstoðarskólastjóri, Björg Melsted fulltrúi kennara, Sölvi Guðmundsson 7. EP fulltrúi nemenda, Katrín Oddsdóttir og Sveinbjörn J. Tryggvason fulltrúar foreldra.

Efni: Tillaga Skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur um breytingu á skólahverfamörkum Melaskóla. Skólaráði er ætlað að ræða þessa tillögu og skila áliti í síðasta lagi 3. febrúar.

Tillagan var lesin upp á fundinum en þar er lagt til að mörk skólahverfisins verði dregin um Hofsvallagötu.

Umræður: Breytt skólahverfamörk ein og sér duga engan veginn til að mæta fjölgun nemenda á næsta skólaári. Sú breyting mun vart skila sér fyrr en eftir 5-6 ár.

Skólaráðið mun ekki leggjast gegn þessari breytingu en finnst æskilegt að foreldrar hafi val um það hvort þeir óski eftir skólavist í Melaskóla eða í öðrum skólum innan hverfisins samanber stefna SFS .

Fulltrúi foreldra spurði hver væri eðlilegur fjöldi nemenda í grunnskóla? Fundarmenn voru sammála um að til að hægt verði að byrja skólann næsta haust við viðunandi starfsaðstæður þurfi:

- að byggja við skólann
- að flytja Selið tímabundið burtu
- að endurnýja skúrana svo hægt verði að kenna heilum árgangi þar.

Skólaráðið telur óviðunandi ástand í húsnæðismálum skólans vera tilefni til úttektar á

- matsal
- kennslustofum
- smærri rýmum
- vinnuaðstöðu

Skólaráðið lýsir áhyggjum af því að erfitt geti reynst að laða að og halda í gott starfsfólk við óbreyttar aðstæður.

Ritari. Helga Pálmadóttir

3. fundur 2016-17

Fundur í skólaráði 12.01.2017

Mætt: Björgvin Þór Þórhallsson skólastjóri, Helga Pálmadóttir aðstoðarskólastjóri, Björg Melsted og Margrét Berndsen fulltrúar kennara, Katrín Oddsdóttir og María Rán Guðjónsdóttir fulltrúar foreldra og Heimir Örn Herbertsson formaður Foreldrafélagsins.

Dagskrá: Óskað er eftir umsögn skólaráðs Melaskóla um eftirfarandi erindi Skóla- og frístundaráðs:  Endurskoðun reglna um skólahverfi og innritun í grunnskóla Reykjavíkurborgar er varðar tillögu og hugmyndir um breytingar á skólahverfismörkum Melaskóla og Grandaskóla.

Tillögur:

 1.  Skólamörk Melaskóla verði dregin um Meistaravelli sem þá tilheyra Grandaskóla, frá hausti 2017.
 2. Skólamörk Melaskóla verði dregin um Hofsvallagötu sem þá tilheyrir Grandaskóla
 3. Nemendum sem búa í Skerjafirði verði ekið í Grandaskóla.

Tillögurnar voru ræddar með tilliti til áhrifa á nemendafjölda í Melaskóla, miðað við daginn í dag og til lengri tíma litið. Skólatjóri ætlar að taka saman umsögn skólaráðsins og sendir Skóla- og frístundaráði fyrir 16.01.2017.

Fram kom á þessum fundi tillaga um að skólaráð og stjórn foreldrafélagsins léti gera samantekt/skýrslu um húsnæði Melaskóla. Tigangurinn er að lýsa stöðunni og meta þörfina fyrir úrbætur. Í nóvember var haldinn opinn fundur skólaráðs um húsnæðisvanda Melaskóla og ályktun fundarins send fræðsluyfirvöldum og borgarstjóra í kjölfarið. Í þessari samantekt/skýrslu þarf að horfa til:

 • -          langtímalausna til frambúðar
 • -          skammtímalausna
 • -          lausna dag fyrir dag -  aðstöðuleysi og þrengsli

Skólastjóri upplýsti um fund með formanni Skóla- og frístundasviðs og fulltrúum frá Framkvæmdasviði borgarinnar í desember síðastliðinn og væntanlegum framhaldsfundi í næstu viku. Í máli skólastjóra kom einnig fram að fyrirhugaðar framkvæmdir á skólalóðinni bíði þar til niðurstaða fæst um það hvort byggt verður við skólann.

Umræða fundarins undirstrikar nauðsyn þess að leiða saman skólaráðið, foreldrafélagið og lóðanefndina til að sameina kraftana og að mynda heildarsýn.

Ritari. Helga Pálmadóttir

2. fundur 2016-17

Fundur í skólaráði 19.10.2016

Mætt: Björgvin Þór Þórhallsson Skólastjóri, Björg Melsted fulltrúi kennara, Margrét Berndsen fulltrúi kennara, Helga Pálmadóttir aðstoðarskólastjóri, Sveinbjörn Júlíus Tryggvason fulltrúi foreldra og Katrín Oddsdóttir fulltrúi foreldra, Valdís Inga Magnúsdóttir 7. HH og Sölvi Guðmundsson 7. EP fulltrúar nemenda.

Axel Sæmann Guðbjörnsson fulltrúi starfsmanna er í veikindaleyfi og Stefán Arnarson fulltrúi grenndarsamfélagsins mætti ekki.

Áður auglýstri dagskrá þar sem ræða átti um fjármál var breytt á eftirfarandi hátt:

 1. Opinn fundur skólaráðs með aðilum skólasamfélagsins (foreldrum, nemendum og starfsfólki)
 2. Húsnæðismál og aðbúnaður
 3. Styrkleikar Melaskóla
 4. Veikleikar

 

 1. Ákveðið var að halda opinn fund í skólaráði síðari hluta nóvember mánaðar. Það brennur á fulltrúum foreldra að fá svar við því hvort Melaskóli nái að framfylgja lögum um grunnskóla og uppfylla viðmið aðalnámskrár um tímamagn í kennslu list- og verkgreina. Hvað gerist ef skólinn uppfyllir ekki þessi viðmið?  Fulltrúar foreldra óska eftir því að gerð verði úttekt á því hvort nemendur fái þá kennslu sem þeim ber og tölur verði fengnar frá öðrum skólum til samanburðar. Vinnuhópur sem skipaður er skólastjóra, aðstoðarskólastjóra og fulltrúum foreldra undirbýr fundinn og sendir út dagskrá.
 2. Fram kom á fundinum að húsnæðið, allur aðbúnaður og fjöldi nemenda hefur áhrif á skipulag kennslunnar og stýrir stundaskrárgerð. Nægilegt rými til kennslu list- og verkgreina í öllum árgöngum er ekki til staðar. Lögð var fram lausleg samantekt á tímamagni í list- og verkgreinakennslu í Melaskóla ásamt viðmiðunarstundaskrá skv. nýrri aðalnámskrá frá 2011.
 3. Rætt var um að til styrkleika skólans mætti telja þá umgjörð sem bekkjakerfið skapar og að á yngra stigi er leitast við að samþætta list- og verkgreinakennslu öðrum námsgreinum í tilteknum verkefnum.
 4. Veikleikarnir eru þegar komnir fram í umræðu um aðstöðuleysi og aðbúnað.

Helga Pálmadóttir