Fundagerðir nemendaráðs

1. fundur 2017-18

19.9.2017

Mættir allir aðal- og varamenn, Kristjana og Þorkell Breki komust ekki.

1. Fjallað um hlutverk nemendaráðs og ábyrgð fulltrúa. Stutt kynning á hefðbundnum verkefnum.

2. Fulltrúar kynna sig. Segja frá því hvers vegna þeir vildu starfa í nemendaráði.

3. Fulltrúar ráðsins í skólaráð valdir. Allir aðalfulltrúar 7. bekkja lýstu sig reiðubúna. Fundurinn samþykkti jafna kynjaskiptingu og því varð Sara Lind Pálmadóttir sjálfkjörin. Drengirnir þrír drógu spil um hver myndi verða annar fulltrúi og kemur það í hlut Hauks Hólm Gunnarssonar. Stefán Smári og Ólafur Steinn verða varamenn þeirra.

Næst verður fundað í næstu viku og þá mæta einungis aðalmenn.

3. fundur 2016-17

11.11.2016

Mætt: Þórdís, Konráð, Hildur Jara, Tómas, Margrét, Hólmfríður, Helena, Árni, Halldór, Jórunn og Dagur.

Björgvin skólastjóri mætti á fundinn til að ræða um fyrirhugaðar breytingar á skólalóð en lóðin verður tekin í gegn fyrir næsta skólaár. Hann kynnti nemendum stýrihóp eða nefnd sem mun hittast, halda fundi og ákveða hvað skuli gera. Í nefndinni munu verða fulltrúar starfsfólks, foreldra og nemenda. Eftir nokkrar umræður var óskað eftir því að nemendur byðu sig fram til að vera í nefndinni og óskaði skólastjóri þess að fulltrúar nemenda yrðu tveir. 4 buðu sig fram, 2 úr 5. bekk og 2 úr 6. bekk en krakkarnir voru sammála um að eðlilegra væri að fulltrúar þeirra bekkjadeilda væru í nefndinni þar sem 7. bekkingar yrðu farnir úr skólanum þegar breytingarnar yrðu. Ákveðið var að hafa jafna kynjaskiptingu og einn fulltrúi yrði úr hvorum árgangi. Frambjóðendur ákváðu að fara í „skæri, blað, steinn“ til að velja fulltrúana og varð niðurstaðan sú að Dagur úr 5.JÓ og Jórunn úr 6.DGH verða fulltrúar nemenda.

Ákveðið var að funda aftur í næstu viku.

2. fundur 2016-17

Mætt: Allir fulltrúar 7. bekkja.

Verkefni fundarins er að velja fulltrúa nemenda í skólaráð. Fyrir valinu verða Valdís Inga Magnúsdóttir 7.HH og Sölvi Guðmundsson 7.EP. Varamaður er Helgi Edwald Einarsson 7.HH.

1. fundur 2016-17

28.9.2016

Fundarefni: Kynning á nemendaráði, hlutverki þess og rætt um verkefni sem framundan eru. Afmæli Melaskóla.

  1. Kynning á nemendaráði. Fundur hófst með því að skoða saman lög um nemendaráð og reglur þær sem gilt hafa um nemendaráð Melaskóla. Einnig talað um verkefni sem fyrri nemendaráð hafa komið að. Lauslega farið yfir fundarsköp. Rætt um hlutverk fulltrúa, aðal- og vara-.
  2. Fulltrúar ráðsins kynna sig.
  3. Skólastjóri ávarpar nemendaráðið. Talar einnig um hlutverk ráðsins og mikilvægi þess að það nemendur komi að málum og séu virkir. Rætt um fulltrúa í skólaráði og mun verða gengið frá vali þeirra á næsta fundi nemendaráðs.  Þar næst talaði skólastjóri um 70 ára afmæli skólans og aðkomu fulltrúa úr nemendaráði að dagskrá á afmælishátíð, bæði um morguninn og síðar um daginn. Nánari útfærsla er í höndum skólastjóra en haft verður samband við fulltrúa 7. bekkja á næstu dögum.
  4. Boðað verður til næsta fundar mjög fljótlega enda þarf að skipa fulltrúa í skólaráð. Rætt um mögulega fundarstaði en auk stofu N12 kemur til greina að funda í stofu Magnúsar fyrir kl. 10 á þriðjudögum.

7. fundur 2015-16

4.4.2016

Mætt: Maron, Helga, Elísa, Haraldur, Úlfhildur, Svanbjörn, Vigdís

Fundarefni: Sumardagur 7. júní

Farið yfir dagskrá eins og hún var fyrir 2 árum. Sumardagur í kjölfar skóladags. Síðan farið í að ræða hugmyndir og hvernig væri hægt að nota vinabekkina. Rætt um hvernig væri hægt að nýta skólalóðina betur, undir leiki eða á einhvern vænlegan hátt. Rætt um hvort hægt væri að nýta morguninn í „búningagerð“ og/eða auðkenna bekki/árganga með litum. Þannig mætti jafnvel tengja vinabekki með litum.