Fundargerðir nemendaráðs

6. fundur 2017-18

20.4.2018

Efni: Umhverfisdagur næstu viku (25.4.)

Nemendaráð leggur til að horft verði á nánasta umhverfi skólans; skólalóð, kirkjugarð, Hagaskólasvæðið o.s.frv.. Sumir vilja reyndar fara í Hljómskálagarð. Það væri þá hægt að blanda saman tiltekt, leikjum og einhvers konar keppni.

Bent var á að mörgum finnst leiðinlegt að tína rusl og því voru aðrar hugmyndir ræddar. Eins verður ávallt að hafa veður í huga.

Listi yfir hugmyndir sem fram komu:

 • vinna verkefni tengd mengun
 • vinna verkefni tengd plasti
 • vinna verkefni tengd dýrum í útrýmingarhættu
 • vinna verkefni tengd sjónum
 • ljóð um umhverfismál
 • kríta skilaboð á skólalóð
 • útbúa og flytja ræður (karlinn á kassanum)
 • útbúa skrautglugga
 • skrifa sögur
 • skrifa ritgerðir
 • semja og flytja leikþætti (jafnvel gera stuttmynd)

Rætt var um að mögulega væri hægt að flytja verkefni fyrir vinabekki. Mikilvægt að verkin verði sýnileg eins og hægt er. Hugmyndalisti þessi verður sendur til stjórnenda.

Við upphaf fundar færði fulltrúi 6.EB skólanum hraðsuðuketil að gjöf og tengdist það umræðum síðasta fundar. Við fórum með gjöfina til Kristínar en hún sagði okkur að bannað væri að hafa svona ketil þar sem hætta væri á að börnin brenndu sig.

5. fundur 2017-18

10.4.2018

Mætt: Kolbeinn, Ellen, Kristín Sædís, Kristjana, Elísabet, Haukur, Sigrún, Ísold, Stefán, Sara

 1. Rætt um vorverk nemendaráðsins. Vordagurinn. Ákveða þarf „liti“ fyrir árganga.
 2. Hugmyndir um umhverfisdag 25. apríl næstkomandi. Ákveðið að hittast eftir viku og taka ákvörðun (í samráði við kennara). Ástand skólalóðar þokkalegt en hugmynd um að fara í kirkjugarðinn og tína rusl. Ákveðið að hittast á fundi eftir viku og ræða frekari hugmyndir varðandi daginn.
 3. Fulltrúi 6.EB segir frá hugmyndum bekkjarins varðandi mötuneyti og skólalóð. Ósk um að hafa hraðsuðuketil fyrir þá sem vilja heitt vatn á núðlur. Einnig að hafa pipar og salt á borðum.
 4. Björgvin skólastjóri stýrir umræðum um skólaþing Melaskóla. Rætt um þá hugmynd að nemendaráðið komi að því þingi og skipt verði í umræðuhópa. Eftir er að taka ákvarðanir um nákvæma tímasetningu en skólaráð fundar í vikunni. Töluverðar umræður sköpuðust um hvað ætti að ræða á þinginu og greinilegt að mötuneytismálin eru nemendum enn hugleikin. Einnig umræður um skólalóð og tæknimál í skólanum.

Næsti fundur eftir viku, þriðjudaginn 17. apríl.

4. fundur 2017-18

6.2.2018

Fundarefni: Dagskrá öskudags.

Farið var yfir skipulag síðasta öskudags og rætt hvað hefði heppnast vel og hvort eitthvað mætti gera betur. Almenn ánægja var með myndatökur og limbókeppni en ekki alveg jafn almenn með marseringu í sal. Spurt var hvort jafnvel væri hægt að gera eitthvað annað í salnum en að marsera. Það erindi verður borið áfram. Annars studdi fundurinn mjög svipaða dagskrá og síðasta ár.

Ákveðið var að nemendaráðsfulltrúar fari í bekkjarstofur mánudaginn 12. febrúar, minni á öskudag og hvetji krakkana til að mæta í búningum í skólann.

3. fundur 2017-18

31.10.2017

Mætt: Kristjana, Ellen, Kolbeinn, Sigrún, Ólafur, Sara, Haukur og Stefán

1. Rætt um hugmyndakassana og hvernig nemendaráðsfulltrúar reyni að virkja bekkjarfélaga sína. Fallist var á að reyna að virkja hugmyndakassa enn á ný og ætla fulltrúar að sjá til þess að þeir verði útbúnir mjög bráðlega. Þeir munu einnig sjá um að kynna kassana í sínum bekkjum.

2. Rætt um liði í skólastarfinu sem nemendaráð hefur á einhvern hátt komið að því að skipuleggja. Rætt um „jóló“-daginn, öskudag, sumarskemmtunina og rápdag sem var fyrir einhverjum árum og þótti takast vel. Einnig var rætt um Melapóstinn sem var gefinn út af nemendaráði. Þá var rætt um hugmyndir um að hvetja nemendur til að „skemmta“ öðrum krökkum. Fulltrúar hafa hug á að kíkja á styrktardaginn í Hagaskóla og sjá hvað þar fer fram. Fyrir næsta fund var ákveðið að fulltrúar myndu ræða hugmyndir í sínum bekkjum til að geta á einhvern hátt metið hvað sé sniðugt að gera. Ávallt þarf að taka tillit til yngri nemenda.

3. Hvað brennur helst á nemendum? Fulltrúar þurfa að spyrja krakkana í sínum bekk hvað helst brenni á þeim í sambandi við skólamálin. Allar tillögur að umræðumálum í nemendaráði eiga að fara í póstkassann. Minna þarf á að póstkassinn er hvorki leiktæki né brandarakassi.

4. Fundað verður aftur í næstu viku og metið hvernig gengið hefur.

2. fundur 2017-18

29.9.2017

Mættir: Björgvin skólastjóri, Stefán, Ólafur, Haukur, Sara, Kolbeinn, Rannveig, Þorkell, Kristín, Ellen, Kristjana, Elísabet

Efni: Erindi skólastjóra varðandi hlaupahjól

Björgvin segir frá hugmyndum sínum um nemendaráð og hlutverki þess. Kvartað hefur verið yfir hlaupahjólum að undanförnu. Björgvin minnist á hugmyndir: a) stór kista inni b) geymd úti.

Ólafur: Ekki gott að hafa úti því þá er hægt að taka hjól og leika sér með í frímó.

Ellen: Kistan, hægt að ruglast á hjólum.

Haukur: Sá grind við vegg í skóla fyrir hjólabretti, hægt að læsa.

Kristjana: Hægt að læsa hlaupahjólum með venjulegum lás við grindverk.

Ellen: Geyma niðri á gangi.

Haukur: Hjól detta oft öll

Ellen: Fikt í hjólum

Tillögur ræddar frá hinum ýmsu sjónarhornum. Niðurstaða umræðna var helst sú að staðan væri dálítið ólík eftir húsum. Í eldri byggingu er þetta meira „vandamál“ þar sem stofur eru minni. Í „nýja skóla“ má ef til vill leysa málið án nokkurra aðgerða en þó var rætt nokkuð um að setja upp kistur fyrir hvern árgang.