Skip to content

Bekkjarfulltrúar

Leiðbeiningar fyrir bekkjafulltrúa

Hlutverk bekkjafulltrúa hvers bekkjar er fyrst og fremst að efla kynni og samstarf foreldra, kennara og nemenda innan bekkjar og vera tengiliður foreldra við stjórn foreldrafélagsins. Bekkjafulltrúarnir eiga að halda utan um foreldrastarfið í bekknum og leggja megin áherslu á að virkja aðra foreldra til starfa en ekki gera allt sjálfir.

Fundur við upphaf skólaársins:

Eftir skólasetningu Melaskóla að hausti safnast foreldrar og kennari saman í skólastofu bekkjarins og ræða saman. Á þeim fundi láta kennarar ganga skráningarblað þar sem óskað er eftir bekkjafulltrúum og fulltrúum foreldra í nefndir á vegum foreldrafélagsins.

Mjög mikilvægt er að bekkurinn kjósi sér bekkjafulltrúa og leggi sig fram við að manna þær nefndir sem í boði eru.

Kennari sér í flestum tilfellum um að koma skráningarblaðinu til skrifstofunnar. Stjórnin nálgast síðan öll blöðin þar og sér um að koma upplýsingum inná heimasíðu félagsins.

Bekkjafulltrúaráðsfundir

Foreldrafélagið hefur síðan samband við alla bekkjafulltrúa og boðar þá á fund bekkjafulltrúaráðs. Haldnir eru að lágmarki 2 fundir með bekkjafulltrúaráði, einn á hvorri önn. Á fésbók gefst bekkjafulltrúum kostur á að tengjast lokuðum hópi þar sem ráðið getur með auðveldum hætti átt samskipti utan funda. Foreldrafélagið á einnig samskipti við ráðið gegnum tölvupóst og sendir fundarboð sem inniheldur dagskrá. Eftir fundina eru síðan fundargerðir ráðsins aðgengilegar á heimasíðu félagsins.

Í upphafi ársins þurfa bekkjafulltrúar að:

 • Mæta á fund bekkjafulltrúaráðs
 • Fara inná Mentor og senda póst á alla foreldra til að fá upplýsingar fyrir síma- og netfangaskrá bekkjarins. Hér má nálgast sniðmát.
 • Boða til kvöldfundar foreldra. Hér má nálgast Sniðmát fyrir Dagskrá kvöldfundarins. Bekkjafulltrúar geta notað þetta sniðmát og fyllt út/breytt eins og þeim hentar.
 • Nálgast kennara og athuga með skiptingu í vinahópa.

Kvöldfundur foreldra

Í fundarboði er gott að biðja foreldra um að kynna sér dagskránna vel til að gera fundinn markvissan og eins stuttan eins og hægt er.

Verkefni kvöldfundar:

 • Fara yfir skráningarblaðið og klára að manna nefndir eins og þarf.
 • Kynning og umræða um samræmd mál.
 • Bekkjaskemmtanir. Verkaskipting og fjöldi. Hugmyndabankinn kemur þarna að góðum notum.
  • Kynna skiptingu í vinahópa. Ræða hvort hafa eigi vinahópa. Ótvírætt til góðs. Í lok fundar er heppilegt að foreldrar ákveði fyrirkomulag innan hvers hóps og tímasetningar.
  • Stofnun hóps á fésbók fyrir foreldra bekkjarins ef áhugi er fyrir slíku. Mikilvægt er að brýna málefnalega umræðu fyrir foreldrum og láta kennara bekkjarins vita að hópurinn sé til staðar.

Boðun aðstoðarmanna

Þegar kemur að viðburðum þar sem aðstoðarmenn eru skráðir, getur komið til þess að bekkjafulltrúar séu beðnir um að tala við aðstoðarmenn sína og tryggja að allir skili sér til starfa.

Almennt starf vetrarins

Bekkjafulltrúar eru tengiliðir kennara og foreldra. Komi upp vandamál í bekknum sem ástæða er til að ræða innan foreldrahópsins sjá bekkjafulltrúarnir um að kalla slíka fundi saman og leiða þá. Ef eitthvað er óljóst þá má alltaf hafa samband við stjórn Foreldrafélagins varðandi ráðgjöf.

Brýnt er að bekkjafulltrúar geri sér ljóst að þeir eru fyrst og fremst fulltrúar barnanna í bekknum. Velferð þeirra á að vera eina leiðarljós hvers fulltrúa.

Frá Heimili og skóla

Á heimasíðu Heimilis og skóla má finna ýmsar hagnýtar upplýsingar fyrir foreldra og bekkjafulltrúa.

Athugið að þessar leiðbeiningar eru í sífelldri endurskoðun. Þið eruð því hvött til að senda inn ykkar hugmyndir og ahugasemdir óhikað á formann Foreldrafélagsins á netfangið: formelaskoli@gmail.com.