Samstarf við foreldra

Heimanám

Í öllum árgöngum er gert ráð fyrir að nemendur vinni einhverja heimavinnu. Tilgangur heimanámsins í yngstu árgöngunum er að foreldrar taki þátt í námi barna sinna og örvi áhuga þeirra. Áhersla er lögð á lestur, skipuleg vinnubrögð, undirbúning næsta dags og að ljúka við verkefni . Heimavinnuáætlun er hægt að nálgast á heimasvæði nemenda í Mentor.is.

Samstarf heimilis og skóla

Gott samstarf skóla og heimila er  ein af forsendum góðs skólastarfs og vellíðunar nemenda í skólanum. Til að svo megi verða þurfa skólastjórnendur, kennarar og foreldrar að leggja sitt af mörkum en samkvæmt aðalnámskrá bera foreldrar og forráðamenn frumábyrgð á uppeldi barna sinna. Menntun og velferð nemenda er sameiginlegt verkefni skólans og heimilis. Umsjónarkennari er tengiliður skólans við heimilið.

Svokallaðir hópfundir eru haldnir fyrir foreldra í hverjum árgangi  í byrjun september.Þar kynna  umsjónarkennarar starf vetrarins, farið er yfir hagnýtar upplýsingar og bekkjarfulltrúar kosnir. Þessir fundir eru einnig kjörinn vettvangur fyrir foreldra til að kynnast og ræða mikilvæg mál svo sem útivistartíma, tölvunotkun, afmæli o.fl.  Foreldrar eru boðaðir með börnum sínum í viðtöl í október og í febrúar þar sem munnlegur eða skriflegur vitnisburður um námsframvindu, líðan o.fl. er afhentur.  Sérstakur kynningarfundur er haldinn fyrir foreldra 6 ára barna við upphaf skólaársins.

Foreldrar eru ávallt velkomnir í skólann. Þeir geta einnig haft samband við kennara á auglýstum viðtalstíma þeirra en að öðru leyti fara samskipti fram gegnum tölvupóst.  Leiðbeiningar  um skynsamlega notkun á tölvupósti í samskiptum skóla og heimilis er að finna á heimasíðu skólans. Upplýsingar um nemendur eru skráðar í Mentor og hafa flestir foreldrar og forráðamenn aðgang að heimasvæði nemandans. Foreldrar geta einnig fengið tilkynningar og mikilvægar upplýsingar svo sem um heimavinnu, ástundun og hegðun barna sinna í Mentor. Þeir foreldrar sem ekki eru skráðirá póstlista skólans fá orðsendingarnar heim með börnunum, oftast á fimmtudegi. Áríðandi er að foreldrar sendi upplýsingar um breytingar á netföngum og símanúmerum til skrifstofu skólans.

Foreldrafélag

Foreldrafélag hefur verið starfandi  við Melaskóla um árabil. Meginmarkmið þess er að vinna að heill og hamingju nemenda skólans. Það hefur yfirumsjón með starfi bekkjarfulltrúa. Í hverjum bekk eru kosnir tveir  bekkjarfulltrúar, en hlutverk þeirra  er að stuðla að auknu samstarfi foreldra, kennara og nemenda innan bekkjarins. Samkvæmt grunnskólalögum nr.91/2008 setur foreldrafélagið sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð, en tveir fulltrúar foreldra sitja í skólaráði.

Foreldrafélag Melaskóla vinnur ötullega að því að styðja við gott skólastarf, en nánari upplýsingar um starfsemi þess má finna á heimasíðu foreldrafélagsins.