Hallærisdagur

Síðasta skóladag fyrir vetrarfrí stóð Nemendaráð fyrir furðufatadegi í skólanum. Nemendur voru hvattir til að mæta í hallærislegum fötum og með sérkennilegar hárgreiðslur. Tilgangurinn var að skapa skemmtilega stemmningu og léttan skólabrag.

Himnasending

015

Í síðustu viku voru Melaskóla færðir 2 Galíleósjónaukar að gjöf auk heimildarmyndarinnar Horft til himins. Einnig fylgdi með tímarit Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness sem gefið var út á ári stjörnufræðinnar 2009. Mun gjöfin örugglega koma að góðum notum hér í skólanum, ekki síst þegar nemendur í 6. bekk vinna verkefni sitt um sólkerfið eftir áramótin.

6. bekkur á ferð og flugi

6. bekkingar taka nú þátt í alþjóðlegum mælingum á gæðum vatns og á dögunum voru þeir við mælingar í Vatnsmýrinni. Á afmælisdegi skólans buðu þeir foreldrum í heimsókn og kynntu þeim verkefni sín um fjöruna.

Haustlitaferð 4.B

 4.bekkur B fór í grenndarskóg Melaskóla sem er í kirkjugarðinum við Suðurgötu eða Hólavallagarði í tengslum við myndlist. Þóra Lovísa myndmenntakennari og Eva umsjónarkennari voru með í för. Börnin skoðuðu trjátegundir, tíndu lauf og virtu fyrir sér haustlitina fallegu.