Skip to content

Fundað með umhverfisráðherra

Fimm áhugasamir nemendur Melaskóla fóru á fund með umhverfisráðherra Guðmundi Inga Guðbrandsssyni í Borgarbókasafni í Grófinni að morgni 19. maí, ásamt fulltrúum þeirra skóla sem tekið hafa þátt í LÁN (Listrænt ákall til náttúrunnar) verkefninu í vetur. Á fundinum fór fram samtal ráðherra við þennan flotta hóp.

Í anddyri safnsins stendur nú yfir sýning nemenda 2. bekkja Melaskóla sem þau hafa unnið með Magnúsi V. Pálssyni myndmenntakennara og Sesselju G. Magnúsdóttur danskennara.

Dagskráin hófst á því að þrír nemendur úr 2. bekk, þau Árni Gunnar, Ingólfur og Málfríður, kynntu verkin á sýningunni og leystu það verkefni með miklum sóma. Daníel Ernir og Marta Dögg úr 5. bekk, báru svo upp áhugaverðar spurningar fyrir ráðherra. Nánari upplýsingar um spurningar nemenda til ráðherra má fá á facebook síðu LÁN verkefnisins (https://www.facebook.com/groups/373998420143007). Við hvetjum alla til að skoða þessa skemmtilegu sýningu en hún stendur til 30. maí.