Skip to content

Öflugir skákmenn

Í lok mars tók Melaskóli þátt í Íslandsmóti grunnskóla í skák. Með skömmum fyrirvara settum við saman fjögurra manna sveit og sendum til keppni. Foreldrar aðstoðuðu við framkvæmdina og eiga þakkir skildar fyrir það. Skemmst er frá því að segja að okkar menn náðu 2. sæti í mótinu, þrátt fyrir frekar ungan aldur. Þetta er frábær frammistaða og við óskum þeim til hamingju með árangurinn og þökkum fyrir bikarinn sem þeir snéru með heim.

Mótið var fyrir aldursbilið 4.-7. bekk og voru margar sveitir mannaðar eldri nemendum, úr 6. og 7. bekk en okkar sveit var sem sé í yngri kantinum. Sveitina skipuðu Nökkvi 4.HGG, Örvar 3.ÁS, Matthías 6.SL og Kormákur 3.MA.

Þess má geta að Matthías, sem tefldi á 1. borði, vann allar sínar skákir. Hann og Kormákur æfa með Skákdeild Breiðabliks en Nökkvi og Örvar æfa skák með KR.

Ekki var unnt að velja í skáksveitina með því að halda innanhússmót áður og bjóða öllum að spreyta sig en það verður gert næst. Og nú tökum við þennan góða árangur sem hvatningu til að gera enn meira og betur í skáklistinni. Þar væri gott að fá hugmyndir og ábendingar frá foreldrum og tilvalið að fara í samstarf með KR.