Skip to content

Óvenjulegur desember

Því miður hefur Covid faraldurinn haft mikil áhrif á skólastarf ársins og óhætt að segja að margt hafi farið úr skorðum. Þannig er það auðvitað líka í desember. Ef allt væri með felldu væru 7. bekkirnir í óða önn við að undirbúa leikrit og foreldrar hefðu þegar mætt til að hlýða á samsöng á aðventu.

Þrátt fyrir að fátt eitt sé venjum samkvæmt reynum við að halda í eitthvað af aðventuhefðum Melaskóla. Yngri nemendur munu dansa kringum jólatréð, 3. bekkur flytur sitt jólasveinaleikrit og 4. bekkur sinn helgileik. Þessar uppákomur verða hins vegar ekki eins og venjan er.

Þar sem jólaskemmtanir verða ekki með hefðbundnu sniði þetta árið verður fimmtudagurinn 17. heill skóladagur en föstudaginn 18. verður skertur. Nemendur verða í skólanum frá 8:30-12:00, allir fá að mæta með sparinesti og halda sín „litlu jól“.

Vonandi eiga nemendur ánægjulega skóladaga áður en þeir halda í langþráð jólaleyfi.