Skip to content

Skólastarf fram að jólum

Skipulag skólastarfsins í Melaskóla, fram að jólum

Nú er að mestu komin niðurstaða í skipulag skólastarfsins til jóla. Ef breytingar verða á sóttvarnaraðgerðum eftir 1. desember, verður það endurskoðað.
Það er óbreytt skipulag hjá 1.-4. bekk fyrir utan að frímínútur færast í  fyrra horf og nú er boðið uppá sund og íþróttir innanhúss. Nemendur í 1.-4. bekk njóta einnig góðs af þeim takmörkunum sem ná til eldri nemenda og fá áfram heimilisfræði og smíði (en þó ekki textílmennt), til viðbótar við aðrar listgreinar.

5.-7. bekkur verður í skólanum frá 8:30 til 12:10 (grímulaus) og fær því fimm kennslustundir í stað fjögurra áður. Allir bekkir mæta á sama tíma. Sund og íþróttir verða á dagskrá þar sem það fellur inn í stundatöfluna (á milli 8:30-12:10), myndmennt, tónmennt og upplýsingatækni auk ensku. Því má bæta við að Sigrún textílkennari mun bjóða þeim nemendum í 5.-7. bekk sem eiga eftir að klára verkefni sín, að gera það. Sigrún fer yfir í Nýja skóla með nokkrar saumavélar og kemur sér fyrir þar. Að öðru leyti eru bekkirnir hjá umsjónarkennurum í bóklegum greinum.

Varðandi hádegismat fyrir 5.-7. bekk: það mál er í skoðun núna og skýrist vonandi sem fyrst hvort við getum boðið uppá hressingu (brauð (smurt á staðnum) og skyr og fleira í þeim dúr. Til stendur að kanna hug foreldra til þess.
.
Nokkur orð um áherslur okkar

Við völdum þessa leið til að halda okkur innan þeirra sóttvarna/hólfa sem kveðið er á um af sóttvarnaryfirvöldum. Til greina kom að víkja frá þeim reglum með því að láta nemendur í 5.-7. bekk ganga í gengum sótthólf 1.-4. bekkjar til að komast í list- og verkgreinastofurnar en við féllum frá þeirri leið. Komi upp smit við slíkar aðstæður er mjög erfitt að rekja það og viðbúið að margir nemendur þyrftu að fara í sóttkví, svo ekki sé talað um smithættu fyrir nemendur og starfsfólk.

Um frávik frá sótthólfum

Til að skýra betur stöðu mála hjá okkur þá vil ég setja upp lista sem sýnir hvar við erum að víkja frá sóttvarnarfyrirmælum stjórnvalda – vegna aðstæðna í skólanum.
Sóttvarnarhólf eru skilgreind sem hópur sem blandast ekki öðrum hópum, og er í tilteknu rými þar sem aðrir koma ekki inn. Eitt hólf er sem sé rýmið (t.d. stofan), sérinngangur og sérsalerni.
Í 5.-7. bekk tekst þetta, að undanskildum innganginum. Salerni eru í bekkjarstofunum og hver bekkur er í sinni stofu.

Í 1.-4. bekk er 1. bekkur með sérinngang en 2.-4. bekkur deila einum inngangi. 1. bekkur situr einn að sínum salernum en strákarnir í 2.-4. bekk sameinast um eitt salerni (aðstaða fyrir tvo) og stelpurnar um annað. Hólf í 1.-4. bekk má samanstanda af alls 50 nemendum, eða ca. tveimur bekkjum. Hjá okkur er hver árgangur í raun eitt hólf, þ.e. í 1. bekk eru um 80 nemendur saman í hólfi, 90 nemendur í 4. bekk en á milli 60 og 70 nemendur í 3. og 4. bekk. Við tölum um tvö hólf á árgangi en mörkin eru ekki skýr.

Til að geta farið eftir sóttvarnarfyrirmælum að fullu þyrftum við að stokka skólastarfið í 1.-4. bekk enn frekar upp og skerða daginn. Það kom aldrei til greina.
Við stóðum því frammi fyrir þeirri staðreynd að við værum nú þegar að víkja frá þessum reglum um sóttvarnir, bara til að geta haldið uppi sæmilega eðlilegu skólastarfi – og þurftum samt að stytta skóladaginn hjá eldri nemendunum.

Þess ber að geta að við skoðuðum kjallara Neskirkju m.t.t. þess hvort við gætum verið þar með textílkennslu og myndmennt fyrir 5.-7. bekk og einnig hádegismat en við töldum hann ekki henta, eftir skoðun.

Þetta var til skýringar á því skipulagi sem við setjum á núna og gildir til jóla nema breytingar verði eftir 1. desember. Þá verður það endurskoðað. Og foreldrar í 5.-7. bekk fá annað bréf á næstunni um hádegishressinguna.

Skólastjóri