Skip to content

Íslenskuverðlaun unga fólksins

Frá afhendingu verðlauna

Þann 16. nóvember, á degi íslenskrar tungu, voru afhent verðlaun fyrir góðan árangur og mikla hæfni í íslensku. Um er að ræða árleg verðlaun á vegum Reykjavíkurborgar og getur hver grunnskóli í borginni tilnefnt einn eða fleiri nemendur. Við í Melaskóla tilnefndum Skæ Sindrason í 7. HJ. Í rökstuðningi okkar kemur m.a. fram: „Skær hefur brennandi áhuga á íslensku og bókmenntum. Hann notar tungumálið á skapandi hátt bæði
í ræðu og riti. Hann vandar málfar en er einnig frjáls í sköpun og leik með tungumálið. Skær er vel að þessum verðlaunum kominn“.

Markmið þessara verðlauna er að auka áhuga æskufólks á íslenskri tungu og hvetja það til framfara í tjáningu talaðs máls og ritaðs. Verndari verðlaunanna er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Verðlaunin heita fullu nafni Íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík. Þeim er alltaf úthlutað á degi íslenskrar tungu, sem er 16. nóvember, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar.

Vegna aðstæðna var ekki haldin athöfn í Hörpu eins og venjan er, heldur fór afhendingin í hverjum skóla fram í bekkjarstofu viðkomandi nemanda.
Verðlaunin eru auk viðurkenningarskjals, ljóðasafn ljóða Jónasar.

Þetta var mjög ánægjuleg athöfn í dag, óvenjuleg, bekkur fullur af grímuklæddum nemendum og ég gat ekki einu sinni tekið í höndina á verðlaunahafanum – og við lukum henni svo á að syngja „Íslenskulagið“, („Á íslensku má alltaf finna svar“), eftir Atla Heimi Sveinsson við texta Þórarins Eldjárns.

Óskum Skæ til hamingju með verðlaunin og kennurum hans, þeim Hrund og Eddu!

Skólastjóri