Skip to content

Ráðstafanir skólans

Skýringar á ráðstöfunum í Melaskóla í kjölfar reglugerðar um Covid-19 frá 3. nóvember sl.

Til foreldra og forráðamanna nemenda í Melaskóla

Komið þið sæl.

Eins og margir vita gengu þessar hertu reglur út á að búa til sóttvarnarhólf nemenda (kölluð „rými“ í reglugerðinni). Nemendur í 1.-4. bekk mega vera allt að fimmtíu í einu hólfi og eldri nemendur allt að 25. Allt að tíu starfsmenn mega koma að starfi með hverju hólfi og mega kennarar t.d. fara á milli hópa innan hólfs og á milli hólfa líka – en þá með grímur.
Þessar ráðstafanir eiga að koma í veg fyrir að margir þurfi að fara í sóttkví, komi upp smit. Þá væri það í mesta lagi innan hólfs.
Þetta er dálítið langur texti hjá mér og því vil ég stytta ykkur leið með því að setja inn meginatriði örstutt hér í byrjun.

Meginatriði

1.    Melaskóli hafði áður, fyrir reglugerðina 3.11., ráðist í aðgerðir. Þær voru helstar:
a.    Lokað á milli húsa (starfsfólk): í raun tvö sóttvarnarhólf starfsmanna.
b.    Síðar bættum við við fleiri sótthólfum starfsfólks.

2.    Forsendur: mjög lítill og þröngur matsalur sem gerir allt skipulag erfitt. Allir í mat gekk ekki upp til lengdar vegna sóttvarnarsjónarmiða.
a.    5.-7. bekkur hætti í mat um miðjan október.
b.    Mun rýmra um 1.-4. bekk og loksins almennilegar aðstæður fyrir þann hóp (einn árgangur í einu).

3.    Ný reglugerð 3.11.:
a.    Gátum ekki haldið uppi kennslu í list- og verkgreinum, a.m.k. ekki í list- og verkgreinastofunum.
b.    Áherslan á að halda úti fullum skóladegi hjá 1.-4. bekk.
c.    Þrátt fyrir mikla hólfun þar, tókst það með því að nýta krafta list- og verkgreinakennnara sem annars hefðu kennt 5.-7. bekk.
d.    Segja má að við höfum náð að halda óskertri kennslu hjá yngri nemendum með því að skerða kennslu hjá þeim eldri.
e.    Áhersla Melaskóla: tryggja gæðastarf og góða upplifun nemenda í skólanum.

Langi textinn

Í 1.-4. bekk eru skv. reglugerðinni, tveir bekkir í hverju hólfi en einn bekkur í 5.-7. bekk. Hjá okkur eru tólf bekkir í 5.-7. bekk og því tólf sóttvarnarhólf.
Sóttvarnarhólf ná líka til innganga og salerna. Nú eru salerni í öllum bekkjarstofum í 5.-7. bekk en bara einn inngangur. Þarna er strax komið frávik frá reglugerðinni.
Í 1.-4. bekk eru tveir inngangar, salerni fyrir 1. bekk (fjórir bekkir) og annað salerni fyrir alla stráka í 2.-4. bekk og loks eitt fyrir allar stelpur í 2.-4. bekk.
Salernismálin í eldri byggingunni styðja augljóslega ekki við sóttvarnarhólfin.

Undanfari: tvö sóttvarnarhólf starfsmanna

Áður en lengra er haldið þarf að taka nokkur skref til baka og fara yfir þær aðgerðir sem við í Melaskóla höfðum þegar ráðist í, löngu fyrir reglugerðina. Við fengum á okkur smit í upphafi skólaárs sem kostaði sóttkví fjölda nemenda. Þá fórum við í að loka á milli húsanna, þ.e. takmarka umferð starfsmanna á milli bygginganna tveggja. Það hafa því verið tvö sóttvarnarhólf starfsmanna í Melaskóla í allt haust. Síðar skiptum við líka starfsfólki í aðalbyggingunni í þrjú til fjögur sótthólf með því að útbúa litlar kaffistofur hér og þar um skólann, s.s. Bókakaffið o.fl.

Litli matsalurinn

Eins og allir foreldrar í skólanum ættu að vita er matsalur Melaskóla mjög lítill og þröngur. Hann myndi sóma sér ágætlega í ca. 70 nemenda skóla en því miður eru nemendur í Melaskóla aðeins fleiri eða um 580.
Um miðjan október gátum við ekki hugsað okkur að halda áfram þeim skrípaleik að halda uppi sótthólfum á sumum sviðum skólans en hafa nemendur svo eins og síld í tunnu í matsalnum. Því ákváðum við rétt fyrir haustleyfið að hætta með hádegismat fyrir 5.-7. bekk en báðum foreldra um að senda nemendur með tvöfalt nesti.
Þá gátum við haft einn árgang í einu í matsalnum, 1. árgang, svo 2. árgang og svo 3. og loks 4. bekk, alls fjögur „holl“. Þá loksins sáum við hvernig matsalur á að vera!
En þetta náðist fram með því að hafa helminginn af skólanum ekki í hádegismat. Mig skortir orð til að lýsa því hvað mér finnst þetta sorgleg staða.

Er önnur leið?

Valkosturinn við þetta var að lengja matarhléð og bæta við hollum. Nú er 1. bekkur í mat kl. 11:20 og svo koma hinir á eftir, alveg til kl. 12:40. Það mætti sem sagt byrja kl. 11 og ná kannski 5. bekk inn þar og 6. bekkur kæmist þá að kl. 13. Að vísu væri þá kominn árekstur við Frístundaheimilið Selið sem þarf matsalinn upp úr kl. 13  fyrir hressinguna sem þeir bjóða börnunum uppá.
Annar möguleiki er að 5.-7. bekkur borði í bekkjarstofunum sínum, annað hvort mat úr mötuneytinu eða sérútbúinn matarpakka. Við vorum í þeim undirbúningi þegar nýja reglugerðin kom og aðstæður breyttust.

Nýja reglugerðin

Nýja reglugerðin tók sem sé gildi í upphafi nóvembermánaðar og þá varð ljóst að við gátum ekki haldið uppi list- og verkgreinakennslu í 5.-7. bekk, a.m.k. ekki í list- og verkgreinastofunum sjálfum. Niðurstaðan varð að Sonný myndmenntakennari færi á milli bekkja í 5.-7. bekk og kenndi myndmennt, Tómas íþróttakennari væri með útiíþróttir og Jórunn tölvukennari með upplýsingatækni. Auk enskukennara er þá kennslan eingöngu í höndum umsjónarkennaranna.  Nemendur í 5.-7. bekk eru nær eingöngu í bekkjarstofum sínum, með grímur (við náum ekki 2ja metra reglunni), fara ekki í matsalinn og íþróttasalirnir og sundlaugin eru lokuð. Við lögðum áherslu á að halda úti fullum skóladegi 1.-4. bekkjar og gátum gert það þrátt fyrir mikla hólfun, með því að nýta list- og verkgreinakennarana sem annars hefðu kennt 5.-7. bekk. Það má því segja að við höfum skert kennslu hjá eldri nemendunum til að komast hjá því að gera það sama hjá þeim yngri.

Samanburður á milli skóla

Aðstæður í skólum eru misjafnar og erfitt að bera þær saman. Þó einn skóli geti haldið úti meiri kennslu en annar, þýðir það ekki að sá síðarnefndi sé ekki að gera sitt besta miðað við aðstæður. Ég veit að sumir telja mínúturnar og skilja ekki hvers vegna einn skóli geti gert meira en annar. Við í Melaskóla erum hins vegar ekki eingöngu að reyna að halda úti sem lengstum skóladegi. Við viljum skipulag sem tryggir nemendum gæðakennslu og góða upplifun í skólanum. 25 nemendur á aldrinum 10-12 ára saman í einni bekkjarstofu lengur en hálfan skóladag, með grímur, mismunandi góðri loftræstingu og nær eingöngu í bóklegum greinum – og ekki í hádegismat: það er ekki gott skólastarf.

Að lokum: auðvitað er okkar skipulag ekki fullkomið eða hafið yfir gagnrýni. Við tökum þessa viku svona (og til og með 17.11.) og ef framhald verður á hertum sóttvörnum, þá skoðum við framhaldið. Mér finnst ekki fullreynt með að bjóða uppá næringu í hádeginu og bæta námsgreinum við stundatöfluna. Þetta er sem sagt í sífelldri endurskoðun og við gerðum í raun núgildandi ráðstafanir með það í huga að þær giltu einungis í tvær vikur.

Björgvin Þór Þórhallsson
Skólastjóri Melaskóla