Skip to content

Vinur vina minna

Vinaliðum, sem störfuðu frá febrúar til maí 2020, voru á dögunum þökkuð vel unnin störf á svokölluðum þakkardegi. Þakkardagurinn er viðurkenning á því að vinaliðarnir hafi leyst verkefni sín af stakri prýði og verið til fyrirmyndar. Farið var með vinaliðana í Smárabíó og pizzuveislu. Eins og nærri má geta nutu krakkarnir og verkefnastjórarnir dagsins og skemmtu sér hið besta.

Vinaliðaverkefnið er norskt að uppruna. Vinaliðar eru nemendur í 5.-7. bekk í Melaskóla sem valdir eru til að skipuleggja, kenna og aðstoða samnemendur í öllum bekkjum við leiki í frímínútum. Þeir eiga einnig að gæta þess að engir nemendur séu einir eða útundan í frímínútum og láta vita ef þeir verða vitni að einelti eða útilokun. Vinaliðarnir eru í sérmerktum gulum vestum svo allir sjái þá vel og geti leitað til þeirra eftir aðstoð. Í verkefninu fá vinaliðar einnig stuðning og leiðsögn svo þeir geti sinnt hlutverki sínu sem best.

Vinaliðaverkefnið er öflug forvörn gegn einelti þar sem börnin fá skipulega þjálfun í að vinna og leika saman. Lögð er sérstök áhersla á að lýðræði, mannréttindi og jafnrétti séu höfð að leiðarljósi. Tilgangurinn er svo auðvitað sá að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi og notið sín í frímínútum.
Nú í september var valinn nýr hópur vinaliða og mun hann starfa til janúarloka.