Skip to content

Sérgreinar í samkomubanni

Sjálfsmynd á tímum samkomubanns

Sjálfsmynd á tímum samkomubanns, heimaverkefni í myndmennt.

Þegar nýr veruleiki blasti við skólasamfélaginu í Melaskóla með tilkomu samkomubanns voru góð ráð dýr. Kennarar jafnt sem nemendur þurftu að temja sér nýtt verklag og voru fyrstu viðbrögð skólans að standa vörð um kjarnagreinar og leggja kapp á að halda þeim sem mest og best í takti við námsáætlun skólaársins. Kennsluhættir voru að flestu leiti hefðbundnir þ.e. innlagnir og stuðningur á skólatíma og svo ögn meira af heimanámi. Eftir fyrstu viku samkomubanns var svo ákveðið að auka við fjölbreytni. Leggja meiri áherslu á fjarkennslu og fjarnám, nýta upplýsingatækni og þar sem hægt var að koma því við að leggja inn verkefni í eigin persónu. Sem sagt leita leiða til að koma til móts við nemendur í þessum aðstæðum sem ástandið setti okkur í.

Húllað í leikfimi með húllahringjum

Kennarar í sérgreinum fengu þá tækifæri til að sinna sínum fögum og nálgast nemendur með fjölbreyttum verkefnum. Sérgreinakennarar nálguðust verkefnið annarsvegar með því að taka saman eða gera námsefni sem umsjónarkennarar nýttu sér í kennslutímum eða lögðu fyrir í heimanámi. Hinsvegar gerðu sérgreinakennarar verkefni sem voru send milliliða laust til nemenda. 

Til að gefa ykkur innsýn inní sérgreinar í samkomubanni eru hér fyrir neðan tekin nokkur dæmi um verkefni og hvernig til tókst.

Íþróttakennararnir sendu heim samantekt á hugmyndum á hreyfingu fyrir ólíka aldurshópa (dæmi 1, dæmi 2) en eftir páskaleyfi var boðið uppá útileikfimi innan ramma samkomubannsins. Nemendur hafa verið afar sáttir við að komast út í skipulagða hreyfingu og leiki… og kennararnir líka.

Samsöngur í dyragættinni

Kennarar í tónmennt sendu námsefni á umsjónarkennara sem nýttu sér það í kennslu ásamt því að senda á nemendur sérverkefni eftir árgöngum. Eftir páska var haldið uppteknum hætti ásamt því að standa fyrir samsöng í dyragættinni en þá mætti tónmenntakennarinn i dyragættina á kennslustofunni með undirspil og leiddi samsöng með viðkomandi bekk en umsjónarkennarinn varpaði söngtextanum á sýningartjaldið. Þessi nálgun á samsöng hefur verið vel heppnuð og kærkomið að brjóta upp kennslustundirnar með söng.

Matur og myndlist, heimaverkefni í myndmennt.

Kennsla í myndmennt var nokkuð fjölbreytt og voru lögð verkefni fyrir nemendur á miðstigi í gegnum Google Classroom ásamt ýtarefni þar sem nemendur gátu kynnt sér listasýningar og vinnutækni til  að kalla fram sjónhverfingar með teikningu, svo eitthvað sé nefnt. Nemendur í 2. og 3. bekk fengu kennslu í sögu  íslenskrar myndlistar frá 1900-2020 og sýndu nemendur mikinn áhuga að sögn kennara.

Að lokum er gaman segja frá myndböndum sem heimilisfræðin sendi frá sér en þau slógu rækilega í gegn og er annað hvert heimili í Vesturbænum búið að baka ljúffengar beyglur úr einungis 4 hráefnum, þökk sé heimilsfræðikennaranum í Melaskóla. Hér er svo hægt að fá uppskrift af mini taco pizzum en fyrir neðan er kennslumyndband um hvernig skal baka karmellusnittur.  Njótið 😉