Skip to content

Jólabarnið

jolasamsongur2014bEin af hefðum Melaskóla í desember er að syngja Jólabarnið eftir Jóhannes úr Kötlum. Lagið samdi Magnús Pétursson sérstaklega fyrir nemendur Melaskóla á sínum tíma og að venju verður það sungið í aðventusamsöng sem að þessu sinni verður 5. desember. Samsöngur yngri nemenda hefst kl. 8:40 en eldri nemendur hefja söng kl. 9:15. Hér getið þið hlustað á lag Magnúsar sem okkur í Melaskóla þykir svo vænt um:

 

Jólabarnið
Jóhannes úr Kötlum/ Magnús Pétursson

Sko hvernig ljósin ljóma,
á litlu kertunum þínum.
– Þau bera hátíð í bæinn
með björtu geislunum sínum.

Þú finnur ilminn af ýmsu,
svo ósköp fallegu´ og góðu.
Og jólagjafirnar glitra
í gegnum töfrandi móðu.

Þú brosir er loginn blaktir
á bláum kertum og rauðum.
Öll þín óspillta gleði
yljar ríkum sem snauðum.

Þú flýtir þér út í fjárhús,
þér finnst nú óþarft að hræðast.
Það grætur yndislegt ungbarn
sem áðan var þar að fæðast.

Þess foreldrar feimin bíða
í fátækt og miklum vanda.
– Þau bíða´ eftir betra skýli
barni sínu til handa.

Þá kemur þú með þín kerti,
kveikir við jötuna lágu
og réttir fram hreina og hlýja
höndina þína smáu.

Og bláeyga jólabarnið
þú berð inn í vöggu þína.
Og allir englarnir syngja
og allar stjörnurnar skína.

Ó, guð! Það er gaman að vera
góða barnið – og finna
allan hinn undursamlega
yndisleik jóla þinna.